diffra
Búðirnar
Stelpur diffra eru stærðfræðinámsbúðir fyrir áhugasamar stelpur og stálp á aldrinum 16-18 ára
Í vikulöngu prógrammi eru þemadagar þar sem farið verður yfir þær greinar sem falla undir Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna en einnig verður alls konar skemmtileg stærðfræði skoðuð sem ekki er fjallað um almennt í framhaldsskólum.
Samhliða er unnið að sjálfstyrkingu í gegnum jafnréttisfræðslu og með því að skoða mikilvægi (og ósýnileika) stærðfræðikvenna í gegnum söguna
Eru búðirnar fyrir mig?
Hefur þú pælt í því hvernig rúmfræðin birtist í byggingum og blómum? Hvernig virkar lausn á annars stigs jöfnum? Hvað það er sem stýrir auglýsingunum sem þú færð á samfélagsmiðlum? Þær sem hafa áhuga og langar að gefa sér tíma til að læra meira um stærðfræði, bæði grunninn og hvernig hún er allt í kring um okkur, eru velkomnar! Það skiptir ekki máli hvort þú myndir setja "stærðfræðinörd" á ferilskránna eða hvort þér fannst gaman í skylduáföngum og værir til í að skoða stærðfræðina betur, svo lengi sem áhuginn er fyrir hendi (og það þarf ekki að kunna að diffra).
Umsagnir fyrri nemenda
Svör við spurningunni „Er eitthvað sem þú munt taka með þér frá búðunum?“
„Já, er búin að læra fullt af stærðfærði sem ég hef aldrei lært í skólanum. Svo var þetta líka bara skemmtilegt. Vissi líka ekki að það væri svona mikið af flottum stærðfræðikonum á Íslandi.“
„Helst er það að hafa kynnst svona mörgum skemmtilegum stelpum, úr mínum skóla og ekki. Ég mun líkt taka með mér að hafa sjálfstraust í stærðfræði“
„Vinasambönd og að ég get gert mikið meira í stærðfræði en ég vissi“
Tæknilegar upplýsingar
Námsbúðirnar verða haldnar 12.-16. ágúst í húsakynnum Háskóla Íslands.
Gert er ráð fyrir að þátttakendur mæti í alla tíma og er þátttökugjaldið 5.000 kr, en engum verður vísað frá sökum fjárskorts.
Umsjónarmenn búðanna
Anna Helga Jónsdóttir, dósent í stærðfræði
Bjarnheiður Kristinsdóttir, lektor í stærðfræðimenntun
Nanna Kristjánsdóttir, nanna@stelpurdiffra.is